Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Portsmouth, sem Hermann Hreiðarsson leikur með, hafna alfarið fréttum enskra fjölmiðla í dag um að það sé á leið í greiðslustöðvun. Þeir segja að fjármál félagsins séu að komast á beina braut.
Leikmenn Portsmouth fengu ekki launin sín á réttum tíma um síðustu mánaðamót og það hefur þar með gerst tvívegis á tímabilinu. Eigendaskipti hafa orðið á félaginu í tvígang á árinu en í yfirlýsingu frá félaginu segir að nýi eigandinn, Ali Al Faraj, hviki hvergi frá því markmiði sínu að koma Portsmouth á réttan kjöl á ný og viðeigandi ráðstafanir hafi verið gerðar.
„Við erum vonsviknir yfir ónákvæmum vangaveltum fjölmiðla um fjármál félagsins og mögulega greiðslustöðvun. Ali Al Aaraj og samstarfsmenn hans tóku við rekstri félagsins með talsverðum skuldum. Hann hefur lagt aðaláhersluna á að leysa fjármálin og félagið er ekki á leið í greiðslustöðvum. Ef af því hefði orðið, hefði það gerst í lok september eða snemma í október. Í þessari viku voru skattayfirvöldum greiddar tvær milljónir punda og glímt er við aðrar eldri skuldir jafnframt því," segir m.a. í yfirlýsingu Portsmouth.
Avram Grant, knattspyrnustjóri félagsins, kveðst ekki hafa áhyggjur af þessum málum. „Ég veit að við glímum við vandamál utan vallar en rétta fólkið glímir við þau. Ég hef enga ástæðu til að draga í efa neitt í þeirri yfirlýsingu sem stjórnin hefur gefið út. Ég hef um nóg að hugsa innan vallar, við erum neðstir í deildinni og ég þarf að glíma við það," sagði Grant við BBC.