Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sendi í dag þeim Graeme Souness og Jürgen Klinsmann tóninn en þeir hafa báðir gagnrýnt hann og lið Liverpool talsvert að undanförnu vegna slaks gengis.
Souness, fyrrum stjóri Liverpool, kvaðst óttast að nú myndi fjara undan liði Liverpool, í kjölfar þess að það er fallið útúr Meistaradeild Evrópu og hefur dregist afturúr í baráttunni um enska meistaratitilinn.
Klinsmann tók undir það og sagði að í lið Liverpool vantaði sköpun, hæfileika og stöðugleika.
„Það er alltaf gagnrýni í gangi en ég hlusta ekki á hana, ég dreg bara niður í sjónvarpinu. Þessir menn eiga svo frábæran feril að baki sem knattspyrnustjórar að stuðningsmenn okkar hlusta varla mikið á þá," sagði Benítez og bætti því við að Klinsmann hefði verið góður í markaðsmálum. Ferill hans í þjálfun væri hinsvegar ansi stuttur.
Liverpool tekur á móti Arsenal á sunnudaginn, á Anfield, og útlit er fyrir að Benítez geti þar í fyrsta skipti teflt Fernado Torres, Steven Gerrard og Alberto Aquilani saman í byrjunarliði sínu í úrvalsdeildinni.
„Nú skulum sjá til hvort við getum bætt stöðu okkar í úrvalsdeildinni og komist í hóp fjögurra efstu. Við getum komist þangað, og við getum enn unnið titil í vetur," sagði Benítez við BBC.