David Sullivan og David Gold, fyrrum eigendur Birmingham, eru enn og aftur sagðir vera búnir að leggja inn tilboð um kaup á enska úrvalsdeildarliðinu West Ham. Sky Sports fréttastofan greindi frá því í kvöld að þeir hafi boðið 50 milljónir punda, jafnvirði 10,2 milljarða króna, en félagið er í eigu CB Holding, dótturfélags Straums.
Gold og Sullivan seldu Birmingham í október eftir að hafa átt félagið í 16 ár. Þeir keyptu Birmingham á 1 milljón punda og seldu kaupsýslumanninum Carson Yeung það á 82 milljónir punda. Þeir hafa áður komið að rekstri West Ham og áttu um tíma 30% hlut í félaginu.
Heimildir Sky herma að eignist þeir Gold og Sullivan West Ham standi ekki til að gera breytingar hvað stjórastöðuna varðar. Gianfranco Zola yrði áfram við stjórnvölinn hjá félaginu sem er í fallsæti, er í þriðja neðsta sæti með 14 stig eftir 16 leiki.