Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United stýrir liði sínu í 900. deildaleiknum annað kvöld þegar Englandsmeistararnir taka á móti nýliðum Wolves í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu annað kvöld.
Þar sem Chelsea á ekki að leika fyrr en á miðvikudag getur United komist upp að hlið Chelsea í toppsæti deildarinnar takist liðinu að innbyrða þrjú stig. Manchester United tapaði fyrir Aston Villa á Old Trafford á laugardaginn og var það fyrsti tapleikur liðsins á heimavelli gegn Villa síðan árið 1983.
Wolves, sem gerði sér lítið fyrir og lagði Tottenham á White Hart Lane í fyrradag, hefur ekki riðið feitum hesti á Old Trafford frekar en mörg lið en síðast fögnuðu Úlfarnir sigri á heimavelli Manchester-liðsins í febrúarmánuði árið 1980.