Enska knattspyrnusambandið hefur krafið Mark Hughes, knattspyrnustjóra Manchester City, um skýringar á orðum sem hann lét falla um Mark Clattenburg dómara eftir leik liðsins við Bolton í úrvalsdeildinni á laugardaginn. Leikurinn endaði 3:3.
Hughes sagði við fjölmiðla eftir leikinn að dómgæslan hjá Clattenburg hefði verið stórfurðuleg, og hlægileg á köflum, og var sérstaklega ósáttur við að hann skyldi reka Craig Bellamy af velli snemma í síðari hálfleik.
Bellamy fékk fyrst gula spjaldið fyrir mótmæli og síðan fyrir meinta "dýfu" eftir að hafa reynt að fara framhjá varnarmanni. Hughes sagði jafnframt að Clattenburg hefði í hálfleik látið í ljós skoðun sína á Bellamy.
Hughes sagði í dag að hann hefði ekki skipt um skoðun. „Orð mín á laugardag voru opinberuð og ég stend við þau. Knattspyrnusambandið hefur beðið mig um að skýra mína hlið málsins og ég get því ekki sagt meira um þetta að sinni," sagði Hughes við BBC.
Bellamy er í eins leiks banni vegna rauða spjaldsins og spilar ekki með City gegn Tottenham annað kvöld.