Manchester United freistar þess að ná Chelsea að stigum á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. United tekur á móti nýliðum Wolves á Old Trafford klukkan 20.
Chelsea er þremur stigum og sjö mörkum á undan United og því ólíklegt að meistararnir nái að tylla sér í toppsætið í kvöld. Chelsea á síðan heimaleik gegn Hermanni Hreiðarssyni og félögum í Portsmouth annað kvöld.
Enn sem fyrr vantar marga leikmenn hjá United. Ólíklegt er að Ryan Giggs spili vegna tognunar í læri og meiddir eru Jonny Evans, Fabio da Silva, Rio Ferdinand, Federico Macheda, Gary Neville, John O'Shea, Rafael da Silva, Edwin van der Sar og Owen Hargreaves.
Nokkra leikmenn vantar hjá Wolves, m.a. miðjumanninn Dave Edwards sem meiddist illa á ökkla um síðustu helgi.
Grétar Rafn Steinsson verður einnig á ferðinni í kvöld þegar Bolton tekur á móti West Ham í miklum fallslag. Sunderland mætir Aston Villa og þá eigast við Birmingham og Blackburn.