Grant mætir aftur á Stamford Bridge

Avram Grant á mikið verk fyrir höndum hjá Portsmouth sem …
Avram Grant á mikið verk fyrir höndum hjá Portsmouth sem sækir Chelsea heim í kvöld. Reuters

Avram Grant, hinn ísraelski knattspyrnustjóri Portsmouth, mætir í fyrsta skipti með lið á Stamford Bridge eftir að honum var sagt upp störfum hjá Chelsea vorið 2008.

Þá hafði Chelsea hafnað í öðru sæti úrvalsdeildarinnar undir hans stjórn og tapað úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Manchester United í vítaspyrnukeppni í Moskvu.

„Ég sannaði allt sem ég þurfti að sanna hjá Chelsea. Tölurnar tala sínu máli og þær eru mjög góðar. Ég átti góðan tíma hjá Chelsea og fótboltinn snýst um ástríður," sagði Grant við BBC en hann hefur fulla trú á því að botnlið Portsmouth geti gert toppliði Chelsea lífið leitt.

„Maður þarf að hafa trú á verkefninu í hvert einasta skipti sem gengið er til leiks. Við vitum að Chelsea er með mjög gott lið og leikurinn verður mjög erfiður en við viljum sýna og sanna að við séum með gott lið," sagði Grant.

Hermann Hreiðarsson er að vanda í leikmannahópi Portsmouth og verður örugglega í byrjunarliðinu eins og í öðrum leikjum eftir að hann náði sér af meiðslunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert