Elska mig meira en eiginkonan

Andrei Arshavin er ánægður með lífið í London.
Andrei Arshavin er ánægður með lífið í London. Reuters

Andrei Arshavin, rússneski knattspyrnumaðurinn hjá Arsenal, er afar ánægður með sitt fyrsta ár í ensku úrvalsdeildinni og hann á vart orð til að lýsa stuðningsmönnum Arsenal.

„Ég er afskaplega ánægður með þá og stundum finnst mér að þeir elski mig enn meira en eiginkonan gerir," sagði Arshavin í samtali við Sky Sports.

Hann hefur skorað 12 mörk í 27 deildaleikjum fyrir Arsenal og er sáttur við þá byrjun en segir að margt í Englandi hafi verið erfiðara en hann bjóst við.

„Ég bjóst við því að fyrir góðan leikmann í stóru liði yrði lífið tiltölulega auðvelt. En það er aldrei nokkurn tíma auðvelt að mæta neinum mótherejum í Englandi. Þó spilað sé gegn Burnley eða Wolves, er enginn friður, maður hefur aldrei tíma til að snúa sér eða gera einhverjar kúnstir við boltann. Maður er heppinn að ná tveimur snertingum í einu," sagði Arshavin, sem vonast eftir því að ná að slást um meistaratitilinn með liði sínu.

„Við höfum fengið nokkur tækifæri til að saxa verulega á forskot toppliðanna en ekki nýtt þau, og ég er dálítið vonsvikinn yfir því. En við vinnum leikinn sem við eigum til góða erum við enn með í baráttunni, en um leið höfum við ekki efni á að tapa fleiri stigum," sagði Arshavin, og kveðst afar ánægður með það frelsi sem hann fær hjá Arsene Wenger í leikjum Arsenal.

„Hann gefur mér frelsi á vellinum og segir mér að spila eftir því hvernig ég les leikinn sjálfur," sagði Andrei Arshavin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert