Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að forráðamenn Manchester City hafi komið fram á óásættanlegan hátt þegar þeir ráku kollega sinn og fyrrum lærisvein, Mark Hughes, úr starfi síðasta laugardag.
„Þetta var óásættanleg framkoma. Einhverra hluta vegna virðast jólin kalla fram það versta hjá stjórnarmönnum. Það skiptir ekki máli hvort menn hafa tapað 20 leikjum eða tveimur, svona koma menn ekki fram. Ég skil ekki hvernig menn fara að því að haga sér svona," sagði Ferguson á vef félagsins.
„Sögusagnirnar voru komar af stað strax á laugardagsmorgun og Mark hlýtur að hafa áttað sig á því að þetta væri hans síðasti leikur. Þetta var hræðileg aðstaða fyrir hann," sagði Ferguson en Hughes lék á sínum tíma undir hans stjórn með Manchester United.
Hughes hefur upplýst að hann hafi ekki fengið neina viðvörun um hvað var í vændum en tveimur tímum eftir að City vann Sunderland, 4:3, í úrvalsdeildinni var honum sagt upp störfum og Roberto Mancini ráðinn í hans stað.