Frank Lampard, miðjumaður Chelsea og enska landsliðsins, hefur verið útnefndur „leikmaður áratugarins“ af Opta, tölfræðifyrirtækinu sem heldur utan um allar staðreyndir í kringum ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu.
Þegar fyrstu tíu ár nýrrar aldar eru skoðuð kemur í ljós að Lampard hefur spilað flesta leiki af öllum í úrvalsdeildinni, hann hefur unnið fleiri leiki en nokkur annar, hann á næstflestar stoðsendingar og er sá fjórði markahæsti í deildinni á þessum áratug.
Lampard hefur samtals spilað 346 leiki í deildinni, fimm leikjum meira en Jamie Carragher hjá Liverpool. Lampard hefur fagnað sigri í 210 af þessum leikjum.
Lampard hefur lagt upp 76 mörk, og aðeins Ryan Giggs hjá Manchester United hefur gert betur.
Lampard hefur skorað 100 mörk en markahæstur á þessum tíu árum er Thierry Henry með 169 mörk fyrir Arsenal.
Það var Claudio Ranieri sem keypti Lampard til Chelsea frá West Ham fyrir 11 milljónir punda sumarið 2001. Ranieri lýsti yfir mikilli ánægju með útnefninguna.
„Það er mér gífurleg ánægja að heyra þessar fréttir því Frank Lampard er einstakur fótboltamaður. Hann er fullkominn leikmaður og fagmaður framí fingurgóma. Það kemur mér ekki á óvart að tölurnar skuli sýna að hann sé fremri öðrum, jafnvel leikmönnum sem taldir eru enn stærri stjörnur en hann.
Í mínum huga er Frank Lampard sannkallaður gulldrengur og ætti að vera útnefndur knattspyrnumaður Evrópu. Hann er það góður. Hann er í sama gæðaflokki og Lionel Messi og Cristiano Ronaldo, bara á annan hátt. Hann leysir erfiða hluti en lætur þá líta einfalda út og ekki eins mikið fyrir augað. En ég er ánægður með að tölurnar skuli sýna og sanna hve góður hann er og hve mikil áhrif hann hefur á leik síns liðs.
Lampard er gífurlega sterkur andlega og sennilega sýnir það best að hann skyldi þurfa að taka vítaspyrnu í þrígang um daginn en skoraði í öll skiptin. Það ber vitni um hve góður hann er undir álagi og hve einbeittur hann er," sagði Ranieri við götublaðið The Sun um útnefninguna á Lampard.
Á hinum enda töflunnar, með flesta tapleiki á áratugnum, er Kevin Kilbane, sem nú leikur með Hull City, en hann hefur tapað 146 leikjum á þessum tíma.
Syndaselur áratugarins er Robbie Savage, sem nú spilar með Derby í 1. deild, en hann fékk flest spjöld á áratugnum. Kevin Davies hjá Bolton er annar í röðinni á þeim lista.