Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri West Ham, segir að það sé gríðarlega mikið undir þegar lið hans tekur á móti Portsmouth í uppgjöri tveggja neðstu liða ensku úrvalsdeildarinnar á morgun. Þetta sé sannkallaður sex stiga leikur.
West Ham er með 15 stig en Hermann Hreiðarsson og félagar í Portsmouth eru með 14. Ef önnur úrslit á morgun og sunnudag verða hagstæð gæti sigurliðið verið komið úr fallsæti að umferðinni lokinni.
„Við verðum að ná í hagstæð úrslit, og það verða að vera þrjú stig vegna þess að Portsmouth er á hælunum á okkur. Þetta er sex stiga leikur og mikið í húfi fyrir okkur að komast lengra frá þeim. Ég veit ekki hverjar jólagjafirnar mínar verða, þær koma alltaf á óvart. En ég vil fá þrjú stig úr leiknum," sagði Zola á vef West Ham.
Bæði lið stóðu sig vel í síðasta leik fyrir jól. Portsmouth sigraði Liverpool, 2:0, og West Ham var nærri því að leggja Chelsea en leikurinn endaði 1:1.
„Portsmouth hefur spilað vel í undanförnum leikjum og virðast komnir á rétta braut, en við erum líka á réttri leið. Það er frábært andrúmsloft hjá okkur þessa dagana og leikurinn gegn Chelsea lyfti öllum upp. Í fótboltanum er nauðsynlegt að ná upp slíkri stemmningu. Leikaðferðir eru mikilvægar en ef þeim fylgja ekki ástríður og löngun leikmannanna þá vantar alltaf eitthvað. Ég reyni að halda þessari stemmningu í gangi og held að það gangi. Liðið sem ég sá spila við Chelsea leit ekki út eins og lið í fallbaráttu. Frammistaðan þar á að vera okkar viðmið og það er í okkar höndum að halda því," sagði Zola.