Peter Hill-Wood, stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, hefur sent Evrópumeisturum Barcelona kaldar kveðjur eftir nýjustu yfirlýsingar þeirra um að þeir ætli sér að krækja í Cesc Fabregas, fyrirliða enska liðsins.
Joan Laporta, forseti Barcelona, sagði rétt fyrir jólin að félagið myndi gera enn eina tilraunina síðar í vetur til að sannfæra forráðamenn Arsenal um að selja þeim Fabregas.
„Ég er búinn að fá nóg af Barcelona og öllu þessu kjaftæði. Cesc er á mjög góðum langtímasamningi hjá okkur og ég held að hann hafi alls ekki í hyggju að hlaupast undan honum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þeir láta svona og þetta er bæði mikil vanvirðing og afar þreytandi framkoma. Maður skyldi ætla að það væri hægt að grípa til einhverra aðgerða gagnvart þeim en það er víst ekki hægt að loka þverrifunni á þessum manni," sagði Hill-Wood við dagblaðið Daily Star í dag.