Arsenal vann sannfærandi sigur á Aston Villa, 3:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Emirates-leikvanginum í London í dag. Cesc Fabregas kom inná sem varamaður og skoraði tvívegis áður en hann þurfti að fara aftur af velli.
Arsenal komst með sigrinum í 2. sæti deildarinnar með 38 stig eftir 18 leiki en Chelsea er efst með 42 stig eftir 19 leiki. Manchester United er með 37 stig eftir 18 leiki en United mætir Hull klukkan 16 í dag. Aston Villa er áfram í fjórða sætinu með 35 stig eftir 19 leiki.
Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleiknum en Arsenal sótti mun meira, sérstaklega eftir því sem á leið.
Cesc Fabregas var settur inná sem varamaður hjá Arsenal snemma í seinni hálfleik og var fljótur að láta til sín taka. Hann skoraði síðan glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu á 65. mínútu, 1:0.
Arsenal náði frábærri skyndisókn á 81. mínútu. Armand Traore átti langa sendingu fram hægri kantinn á Theo Walcott, hann sendi boltann áfram innfyrir vörnina á Cesc Fabregas sem skoraði öðru sinni, 2:0.
Fabregas varð fyrir meiðslum þegar hann skoraði og fór aftur af velli skömmu eftir markið. Líklega tóku meiðslin í lærinu sig upp að nýju.
Þegar mínúta var komin framyfir leiktímann lék Abou Diaby upp að vítateig Villa og skoraði með fallegu skoti af 20 metra færi, 3:0.
Arsenal: Almunia, Sagna, Gallas, Vermaelen, Traore, Song Billong, Denilson, Nasri, Diaby, Eduardo, Arshavin.
Varamenn: Fabianski, Fabregas, Vela, Walcott, Ramsey, Silvestre, Eboue.
Aston Villa: Friedel, Luke Young, Dunne, Cuellar, Warnock, Ashley Young, Petrov, Milner, Downing, Agbonlahor, Heskey.
Varamenn: Guzan, Sidwell, Carew, Delph, Reo-Coker, Beye, Collins.