Manchester United endurheimti annað sætið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag með því að sigra Hull City, 3:1, á KC leikvanginum í Hull. Wayne Rooney var í aðalhlutverki, skoraði fyrsta mark United og lagði upp hin tvö, og átti jafnframt sök á marki Hull.
Manchester United er þá komið með 40 stig eftir 19 leiki en Chelsea er með 42 stig eftir 19 leiki. Arsenal er í þriðja sætinu með 38 stig en hefur spilað 18 leiki.
United náði forystunni í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Darren Fletcher sendi boltann fyrir mark Hull frá hægri, Ryan Giggs fleytti boltanum áfram með hælnum og Wayne Rooney skoraði af markteig, 0:1.
Á 59. mínútu braut Rafael da Silva á Jozy Altidore, sóknarmanni Hull. Dæmd var vítaspyrna og úr henni jafnaði Chris Fagan, 1:1.
Wayne Rooney var aðal sökudólgurinn þegar Hull jafnaði því vítaspyrnan kom eftir slæm mistök hans. En Rooney bætti fyrir það á 73. mínútu þegar hann fékk sendingu innfyrir vörn Hull, hægra megin, sendi boltann inní markteiginn þar sem Andy Dawson sendi hann í eigið mark, 1:2.
Og enn var Rooney á ferðinni á 82. mínútu. Hann fékk boltann vinstra megin í vítateig Hull og renndi honum þvert inná markteiginn þar sem Dimitar Berbatov var mættur og skoraði þriðja mark liðsins, 1:3.
Liðin voru þannig skipuð:
Hull: Myhill, Mendy, Gardner, Zayatte, Dawson, Garcia, Boateng, Olofinjana, Hunt, Altidore, Fagan.
Varamenn: Duke, Barmby, Geovanni, Kilbane, Ghilas, Vennegoor of Hesselink, Cairney.
Man Utd: Kuszczak, Rafael Da Silva, Vidic, Brown, Evra, Valencia, Carrick, Fletcher, Giggs, Berbatov, Rooney.
Varamenn: Foster, Owen, Park, Welbeck, Fabio Da Silva, Obertan, De Laet.