Bandarískt 100 milljón punda tilboð í West Ham?

West Ham gæti verið komið í bandaríska eigu fljótlega á …
West Ham gæti verið komið í bandaríska eigu fljótlega á nýju ári. Reuters

Sky Sports segir í dag að bandarískir fjárfestar, Inter Market, muni gera CB Holding, hinum íslensku eigendum enska knattspyrnufélagsins West Ham, 100 milljón punda tilboð í félagið í næstu viku.

Það er helmingi hærri upphæð en David Gold og David Sullivan hafa rætt um en þeir hafa falast eftir félaginu undanfarnar vikur.

Inter Market munu, samkvæmt Sky Sports, hafa sett stefnuna á að gera tilboðið næsta mánudag, 4. janúar, og stefna að því að láta Gianfranco Zola, knattspyrnustjóra félagsins, fá fé til leikmannakaupa í janúarmánuði.

Bandaríkjamaðurinn Jim Bowe er framkvæmdastjóri Inter Market en sagt er að nokkrir fjárfestanna séu taldir vera harðir stuðingsmenn West Ham sem vilji koma félaginu til bjargar í erfiðri fallbaráttu.

Sky Sports segir að talið sé að CB Holding hafi tekið þessum málaleitunum vel en félagið hafnaði tilboði frá Gold og Sullivan fyrir skömmu og þá kom fram að ekkert lægi á að selja félagið.

West Ham er í fjórða neðsta sæti úrvalsdeildarinnar en liðið tapaði, 0:2, fyrir Tottenham á útivelli í síðasta leik sínum á árinu í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert