Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri Manchester United sagði eftir ósigur sinna manna gegn Leeds í dag að hann hefði verið hneykslaður og undrandi á slappri frammistöðu liðsins en 2. deildarlið Leeds gerði sér lítið fyrir og sló Englandsmeistarana út úr ensku bikarkeppninni með 1:0 sigri á Old Trafford.
,,Undirbúningurinn fyrir leikinn var mjög góður en ég er hneykslaður á frammistöðu liðsins,“ sagði Ferguson við MUTV sjónvarpsstöðina eftir leikinn.
,,Við byrjum ekki rétt en það gerði Leeds. Þeir náðu að koma marki á okkur og héldu fengnum hlut eftir það. Leikmenn Leeds börðust eins og tígrisdýr og við reiknum með því að öll lið geri það sem mætir í bikarleik á Old Trafford.
,,En við erum aðeins mannlegir og stundum er frammistaðan með þeim hætti að þú ert undrandi. En ég átti ekki von á því í dag,“ sagði Ferguson.