Landsliðsmaðurinn Heiðar Helguson er aftur genginn í raðir Watford. Heiðar staðfesti í samtali við mbl.is að Watford og QPR hefðu komist að samkomulagi um að hann verði í láni hjá Watford út leiktíðina og eftir það er möguleiki á að Watford semji til frambúðar við hann.
Heiðar er samningsbundinn QPR en hann var lánaður til Watford í september og gilti sá samningur til 28. desember. Heiðar hélt aftur til Watford um mánaðarmótin og lék síðustu mínútur QPR í bikarleiknum gegn Sheffield United.
,,Ég er bara mjög ánægður með þessa niðurstöðu. Ég kann vel við mig í Watford. Þar fæ ég að spila og mér hefur gengið vel með liðinu. Síðan er möguleiki að ég semji svo við Watford eftir að lánstímanum lýkur,“ sagði Heiðar við mbl.is.
Malky Mackay knattspyrnustjóra Watford varð því að ósk sinni en hann sagðist ætla að gera allt sem hann gæti til að fá Heiðar aftur til félagsins. Heiðar hefur átt góðu gengi að fana með Watford í þeim 10 leikjum sem hann hefur spilað með liðinu. Hann hefur skorað 5 mörk í þessum leikjum og hefur verið mjög öflugur í sóknarleik liðsins.
Leik Watford og Sheffield United sem fram átti að fara á morgun hefur verið frestað og ákvað Heiðar að skella sér í helgarfrí í hlýjuna til Íslands ásamt fjölskyldu sinni en hann verður síðan mættur til starfa hjá Watford eftir helgina.