Peter Coates, stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins Stoke City, hefur staðfest að hann hafi spurst fyrir um möguleikana á að fá Ruud van Nistelrooy, hollenska markaskorarann gamalkunna, til félagsins frá Real Madrid nú í janúar.
„Þetta er kannski langsótt en við höfum kannað málið og bíðum svara. Þetta byggist á því að hann vilji spila til að eiga möguleika á að komast í lokakeppni HM. En við vitum ekki enn sem komið er hversu raunhæft þetta er hjá okkur," sagði Coates við BBC í Stoke í dag.
Van Nistelrooy er 33 ára gamall og hefur ekki fengið mikið að spila með Real Madrid í vetur. Hann kannast vel við sig í Englandi eftir að hafa gert þar garðinn frægan með Manchester United.