Stjórnarmaður Liverpool segir af sér vegna tölvupósts

Eigendur Liverpool eru óvinsælir meðal stuðningsmanna og nú hefur sonur …
Eigendur Liverpool eru óvinsælir meðal stuðningsmanna og nú hefur sonur annars þeirra sagt af sér. Reuters

Tom Hicks yngri hefur sagt af sér sem stjórnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu og sent stuðningsmanni félagsins tölvupósta með ósæmilegu orðalagi.

Hicks er Bandaríkjamaður, sonur Tom Hicks eldri, annars aðaleigenda félagsins.

Umræddur stuðningsmaður, Stephen Horner að nafni, sendi Hicks yngri tölvupóst með hluta úr grein sem birtist í blaðinu Liverpool Echo. Þar var fjallað um þá erfiðleika sem Rafael Benítez knattspyrnustjóri þyrfti að glíma við, án þess að fá úr miklum fjármunum að spila.

Hicks brást við þessu með því að svara Horner í tvígang. Í fyrri tölvupóstinum kallaði hann Horner „fávita“ og í þeim seinni var að sögn kveðið enn fastar að orði.

Horner skýrði frá því að Hicks hefði síðar á laugardaginn sent sér þriðja póstinn og beðist afsökunar á því að hafa misst stjórn á skapi sínu og látið ljót orð falla.

Stuðningsmenn Liverpool brugðust illa við þegar þetta spurðist út og Hicks ákvað í kjölfarið á viðbrögðum þeirra að segja tafarlaust af sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert