Adebayor í ótímabundnu leyfi

Emmanuel Adebayor, fyrirliði Tógó.
Emmanuel Adebayor, fyrirliði Tógó. Reuters

Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að framherjanum Emmanuel Adebayor hafi verið veitt ótímabundið leyfi til að jafna sig eftir skotárásina á landsliðsrútu Tógómanna síðasta föstudag. Hann þurfi ekki að mæta til félagsins á ný fyrr en hann telji sig tilbúinn til þess.

Tógómenn drógu lið sitt útúr Afríkukeppninni í kjölfar skotárásarinnar þar sem þrír úr fylgdarliði landsliðsins létust og markvörður liðsins liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi. Í morgun var endanlega staðfest af hálfu Afríska knattspyrnusambandsins að þeir myndu ekki mæta aftur til leiks.

„Ég er afar leiður fyrir hönd Adebayors því það er óbærilegt að lenda í svona stöðu. Ég gef honum þann tíma sem hann þarf og síðan ræðum við málin þegar hann kemur aftur. Í kjölfarið á því ákveðum við hvenær hann sé tilbúinn til að spila með okkur á ný," sagði Mancini eftir 4:1 sigurinn á Blackburn í gærkvöld.

Adebayor er fyrirliði Tógó og hann hefur lýst því sem gerðist á föstudag í fjölmiðlum. Hann segir að leikmenn liðsins hafi allir talið að þeirra síðasta stund væri runnin upp og þeir hefðu hringt í fjölskyldur sínar af gólfi rútunnar, þar sem þeir lágu til að forðast skothríðina, til að kveðja þær hinsta sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert