Tyrkneska knattspyrnufélagið Galatasaray tilkynnti á vef sínum í morgun að það hefði keypt ástralska varnarmanninn Lucas Neill, fyrrum fyrirliða West Ham og Blackburn, af Everton fyrir 750 þúsund pund.
Ennfremur að samið hefði verið við hann til hálfs annars árs. Neill, sem er 31 árs, kom til liðs við Everton í september og samdi þar til eins árs en hann hafði þá verið með lausan samning frá því hann yfirgaf West Ham um vorið og hafnaði nýju samningstilboði.
Neill lék 14 leiki með Everton en spilaði ekki með liðinu í Evrópudeild UEFA og því gjaldgengur með Galatasaray í þeirri keppni síðar í vetur.
Neill hefur verið landsliðsfyrirliði Ástrala og á 53 landsleiki að baki fyrir þjóð sína. Hann hefur leikið allan sinn feril í Englandi, frá árinu 1995. Fyrst sex ár með Millwall, þá sex ár með Blackburn, tvö ár með West Ham og loks þessa fjóra mánuði með Everton.