Chelsea og United fögnuðu sigrum

Ashley Cole fagnar marki sínu ásamt John Terry og Florent …
Ashley Cole fagnar marki sínu ásamt John Terry og Florent Malouda. Reuters

Toppliðin í ensku úrvalsdeildinni, Chelsea og Manchester United, fögnuðu bæði sigrum á heimavelli í dag. Chelsea rótburstaði Sunderland á Stamford Bridge, 7:2 og Englandsmeistarar Manchester United báru sigurorð af Burnley á Old Trafford, 3:0.

Chelsea, sem er stigi á undan United í toppsætinu en hefur leikið leik færra, gerði út um leikinn í fyrri hálfleik en eftir hann var staðan, 4:0. Chelsea-liðið fór á kostum og hefði hæglega getað unnið stærri sigur. Nicolas Anelka og Frank Lampard gerðu 2 mörk hvor og þeir Ballack, Ashley Cole og Malouda gerðu sitt markið hver. Zenden og Darren Bent gerðu mörkin fyrir Sunderland.

Manchester United skoraði mörkin þrjú á síðustu 25 mínútum leiksins en gestirnir frá Burnley fengu svo sannarlega sín færi og áttu til að mynda skot í stöng. Dimitar Berbatov, Wayne Rooney og Sengalinn Diouf gerðu mörk meistaranna og þar með opnaði Mame Diouf markareikning sinn fyrir United í sínum öðrum leik með liðinu. Jóhannes Karl Guðjónsson lék síðustu 20 mínúturnar fyrir Burnley.

Tottenham tapaði dýrmætum stigum en liðið varð að sætta sig við markalaust jafntefli gegn Hull á White Hart Lane.

Wigan hrósaði 2:0 sigri á móti Wolves á útivelli.  James McCarthy og Charles N'Zobia gerðu mörkin fyrir Wigan í seinni hálfleik.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert