Fari svo að Edwin van der Sar standi á milli stanganna hjá Manchester United í leiknum gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag skráir Hollendingurinn nafn sitt í sögubækur félagsins.
Hann verður þá elsti markvörðurinn sem ver mark liðsins, 39 ára og 79 daga gamall. Landi hans, Raimond van der Gouw, var 39 ára og 48 daga gamall þegar hann lék sinn síðasta leik með félaginu gegn Charlton í maí árið 2002.
Van der Sar hefur ekkert leikið með Englandsmeisturunum frá því í nóvember. Hann meiddist þá á hné og síðan fékk hann ótímabundið leyfi til að hjúkra veikri eiginkonu sinni en hún hlaut heilablæðingu á Þorláksmessu. Hún hefur jafnað sig og er Van der Sar búinn að æfa með Manchester-liðinu síðustu dagana og er klár í slaginn á ný.
Van der Sar verður þó ekki elsti leikmaður Manchester United frá upphafi því Billy Meredith var 46 ára og 281 daga gamall þegar hann lék sinn síðasta leik með liðinu í maí 1921.