Enskir fjölmiðlar fullyrða í dag að Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sé æfur útí Hollendinginn Ryan Babel, vegna þess að sá síðarnefndi hafi hafnað því að vera seldur til Sunderland.
Þar hafi jafnframt hangið á spýtunni að Liverpool fengi í staðinn sóknarmanninn sterka frá Trínidad og Tóbagó, Kenwyne Jones, en Benítez er sagður hafa augastað á honum til að styrkja hjá sér framlínuna.
Babel hafnaði því á dögunum að fara til Birmingham sem bauð í hann 8 milljónir punda og kvaðst vilja berjast áfram fyrir sæti sínu hjá Liverpool. Babel var ekki í leikmannahópi Liverpool í gær þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Stoke í úrvalsdeildinni.