Nú er ljóst að Michael Essien, miðjumaður Chelsea, verður frá keppni í einn mánuð hið minnsta vegna meiðslanna sem hann varð fyrir á æfingu landsliðs Gana í Angóla um helgina.
Essien, sem er nýstiginn uppúr meiðslum, lék seinni hálfleikinn með Gana gegn Fílabeinsströndinni í síðustu viku en meiddist síðan í hné á æfingu liðsins í gærmorgun. Myndatökur hafa leitt í ljós að liðband er rifið og liðþófi skaddaður.
Læknir Ganamanna kvaðst viss um að Essien yrði frá keppni í mánuð og jafnvel lengur. Hann missir því af mikilvægum leik Ganamanna gegn Burkina Faso í Afríkukeppninni á morgun, og síðan af næstu leikjum Chelsea í deild og bikar, jafnvel næstu leikjum liðsins í Meistaradeild Evrópu.