Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, ætlar ekki að tefla Rio Ferdinand fram gegn Manchester City í undanúrslitum deildabikarsins annað kvöld, þó miðvörðurinn sé kominn af stað á ný eftir langvarandi meiðsli. Ryan Giggs verður líka hvíldur.
Ferguson sagði við fréttamenn í dag að hann yrði með þokkalega sterkt lið í leiknum. Auk þess sem Giggs og Ferdinand koma ekki við sögu er óvíst að Dimitar Berbatov verði með. Hann fékk högg á læri í leiknum við Burnley á laugardaginn og það skýrist á morgun hvort hann geti leikið.
„Ég verð að huga að því að dreifa álaginu vegna þess hve þétt við spilum, og svo hef ég alltaf gefið ungum leikmönnum tækifæri í þessari keppni. Ég verð með nokkuð sterkt lið en ungir menn munu líka koma við sögu," sagði Ferguson.
Í deildabikarnum er leikið heima og heiman í undanúrslitum og þessi fyrri grannaslagur Manchesterliðanna fer fram á Borgarleikvanginum, heimavelli City.