Burnley, félag Jóhannesar Karls Guðjónssonar í ensku úrvalsdeildinni, hefur fengið til sín nánast allt helsta starfslið Sheffield Wednesday. Það kemur í kjölfar þess að knattspyrnustjórinn Brian Laws, sem var sagt upp hjá Wednesday í desember, tók við liði Burnley í síðustu viku.
Það eru markvarðaþjálfarinn Billy Mercer, yfirnjósnarinn Tim Henderson og þrekþjálfarinn Tom Little sem nú eru komnir til Burnley og áður var aðstoðarþjálfarinn Russ Wilcox kominn til starfa á Turf Moor, frá Wednesday.
Þá hefur reyndasti leikmaður Burnley, miðjumaðurinn Graham Alexander, verið ráðinn þjálfari samhliða því að spila með liðinu. Hann er elsti útispilarinn í úrvalsdeildinni, 38 ára gamall.
Svona ganga kaupin oft á eyrinni í enska fótboltanum en þegar Owen Coyle yfirgaf Burnley til að taka við Bolton fyrir skömmu fylgdi honum nánast allt starfsliðið hjá Burnley.