David Sullivan, annar nýrra eigenda enska knattspyrnufélagsins West Ham, segir að langtímamarkmið þeirra sé að koma félaginu í hóp fjögurra bestu í Englandi og í Meistaradeild Evrópu. Fyrsta verk sé hinsvegar að taka til eftir óráðsíu Íslendinganna sem áður áttu félagið.
„Ég og félagi minn, David Gold, munum tala í hreinskilni við stuðningsmenn félagsins um bókhald þess, ójafnvægið í leikmannahópnum og þessi brjálæðislegu laun sem Íslendingarnir greiddu og komu félaginu á kné. En þetta er mikilvægur dagur fyrir okkur, við höfum stefnt að því í 20 ár að eignast þetta félag," sagði Sullivan í viðtali við BBC fyrir stundu.
„Við höfum tekið að okkur risavaxið verkefni hjá félagi sem á í gríðarlegum vandræðum og það mun taka sinn tíma að snúa blaðinu við. Við höfum sett okkur markmið til styttri og lengri tíma. Fyrsta markmið er að tryggja liðinu áframhaldandi sæti í úrvalsdeildinni en langtímamarkmiðið er að berjast um að komast í hóp fjögurra bestu og í Meistaradeild Evrópu.
Knattspyrnustjórinn fær strax eitthvert fjármagn til umráða til leikmannakaupa. Janúar er ekki besti tíminn til þess, það býðst ekki margt á kostakjörum núna, en það er slíkt ójafnvægi í leikmannahópnum að við verðum að ná í leikmenn, kaupa þá, fá þá lánaða eða semja við þá," sagði Sullivan en þeir Gold hafa keypt helminginn í félaginu af CB Holding og yfirtaka skuldir þess sem eru taldar vera í kringum 38 milljónir punda.
Gianfranco Zola fær að spreyta sig áfram sem knattspyrnustjóri og talið er að efstir á óskalista nýrra eigenda og hans séu þeir Benjani Mwaruwari hjá Manchester City og Eiður Smári Guðjohnsen hjá Mónakó.