David Sullivan, annar nýju eigendanna hjá enska knattspyrnufélaginu West Ham, segir að skuldir þess séu mikið hærri en CB Holding og Straumur hafi gefið upp. Þær séu yfir 100 milljónum punda en talað hafi verið um 38 milljónir punda áður.
„Við höfum greitt niður hluta af skuldunum og sett fé í reksturinn en skuldirnar nema samt rúmlega 100 milljónum punda. Þar af skuldar félagið bönkum 50 milljónir og öðrum félögum 40 milljónir. Það er engin innkoma, fyrri eigendur tóku lán út á ársmiðasölu næstu tveggja ára og styrktaraðilar hafa þegar greitt 70 prósent af sínum hlut fyrir næstu þrjú árin. Fyrir utan þetta er svo starfslokasamningurinn við Alan Curbishley þannig að í heildina gerir þetta um 110 milljónir punda," sagði Sullivan á blaðamannafundi á Upton Park í dag.
„Við hefðum ekki keypt þetta félag, nema vegna þess að þetta var West Ham. Það er ekkert viðskiptalegt vit í því fyrir nokkurn mann að kaupa þetta félag og það er með ólíkindum að fleiri en við skyldu hafa áhuga á því," sagði Sullivan sem segir að hann og David Gold kaupi félagið fyrst og fremst vegna þess að þeir séu stuðningsmenn West Ham og vilji byggja félagið upp að nýju.