Arsenal komst í kvöld í efsta sætið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með því að sigra Bolton Wanderers, 4:2, á Emirates-leikvanginum í London, eftir að Bolton hafði náð tveggja marka forystu snemma leiks.
Arsenal er með 48 stig eins og Chelsea en er með betri markatölu. Markamismunur liðanna er nú jafn en Arsenal hefur skorað fleiri mörk. Chelsea á hinsvegar leik til góða. Manchester United er með 47 stig í þriðja sætinu. Bolton er áfram næstneðst með 18 stig.
Bolton náði óvænt forystunni strax á 7. mínútu þegar Gary Cahill skoraði með föstu skoti úr miðjum vítateig eftir að Kevin Davies vann skallaeinvígi á vítateigslínunni, 0:1.
Og Bolton komst tveimur mörkum yfir á 28. mínútu. Matthew Taylor skoraði úr vítaspyrnu eftir að Denilson braut klaufalega á Chung-Yong Lee, 0:2.
Á 43. mínútu fékk Tomás Rosický boltann frá Cesc Fabregas, lék að vítateigslínu Bolton og skoraði með þrumuskoti útvið stöng, 1:2.
Á 55. mínútu jafnaði Cesc Fabregas metin fyrir Arsenal en svo virtist sem William Gallas félagi hans bryti illa af sér rétt á undan. Boltonmenn mótmæltu ákaft en markið stóð, 2:2.
Á 65. mínútu náði svo Arsenal forystunni. Eftir þunga pressu fékk miðvörðurinn Thomas Vermaelen boltann í miðjum vítateig Bolton og þrumaði honum í netið, 3:2.
Á 85. mínútu skoraði Rússinn Andrei Arshavin fjórða mark Arsenal þegar hann lék á Jussi Jääskeläinen markvörð og sendi boltann í tómt mark Bolton, 4:2.
Grétar Rafn Steinsson var í byrjunarliði Bolton og lék allan leikinn.
Liðin voru þannig skipuð:
Arsenal: Almunia, Sagna, Gallas, Vermaelen, Clichy, Fabregas, Denilson, Diaby, Rosický, Arshavin, Eduardo.
Varamenn: Fabianski, Vela, Walcott, Silvestre, Traore, Eastmond, Emmanuel-Thomas.
Bolton: Jääskeläinen, Grétar, Cahill, Knight, Robinson, Lee, Mark Davies, Muamba, Cohen, Taylor, Kevin Davies.
Varamenn: Al Habsi, Samuel, Elmander, Klasnic, Ricketts, McCann, Andrew O'Brien.