Enska knattspyrnusambandið hefur staðfest að það muni skoða framferði Gary Neville, fyrirliða Manchester United, þegar hann brást við sigurmarki Carlos Tévez í slag Manchesterliðanna í deildabikarnum í gærkvöld.
Neville sagði í viðtölum fyrir leikinn að það hefði verið í góðu lagi hjá United að losa sig við Tévez og leyfa honum að fara til nágrannanna í Manchester City í sumar.
Þegar Tévez fagnaði sigurmarkinu með því að hlaupa að varamannabekkjum liðanna og mynda trektir með höndunum við eyrun, brást Neville við því með því að "sýna puttann". Sambandið mun skoða myndir af atvikinu og Neville gæti átt von á sekt eða annarri refsingu fyrir tiltækið.
Neville, sem var að hita upp fyrir utan völlinn, fékk aðvörun frá enska knattspyrnusambandinu eftir deildaleik liðanna í vetur, þá fyrir viðbrögð sín eftir að Michael Owen skoraði sigurmark United undir lok leiksins.