Sullivan: Eggert vildi koma aftur

David Gold og David Sullivan á Upton Park.
David Gold og David Sullivan á Upton Park. Reuters

David Sullivan, annar nýju eigendanna hjá enska knattspyrnufélaginu West Ham, segir að Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður félagsins, hafi haft samband og látið í ljós áhuga á að koma aftur til starfa hjá West Ham.

Þetta kemur fram í Daily Mail í dag og Sullivan segir að það hefði aldrei komið til greina að fá Eggert aftur til félagsins.

„Íslensku eigendurnir settu upp viðskiptamódel sem gekk ekki upp. Það sama gerðu Manchester City og Chelsea, en þegar menn hafa á bakvið sig eiganda sem er tilbúinn til að láta 50 til 60 milljónir punda úr eigin vasa á ári, er það ekki vanræksla. Það er ljóst að Eggert hélt að eigandinn (Björgólfur Guðmundsson) myndi gera það.

Eggert hringdi í okkur fyrir sex vikum og sagðist langa til að koma aftur til starfa. Ég veit ekki hvað maðurinn er að hugsa. Hvers vegna ættum við að þurfa á honum að halda og hvað myndu stuðningsmenn okkar segja? Ef við myndum kynna hann sem nýjan framkvæmdastjóra myndu þeir ganga af göflunum," sagði Sullivan við Daily Mail.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert