Carlos Tévez, argentínski knattspyrnumaðurinn hjá Manchester City, segir að mörkin sem hann skoraði í 2:1 sigrinum á Manchester United, hans gamla félagi í gærkvöld, séu tileinkuð stuðningsmönnum City.
„Þetta var mjög sérstakt fyrir mig, mörkin tvö eru fyrir stuðningsmenn City," sagði Tévez við BBC. Hann fagnaði seinna markinu nákvæmlega eins og hann gerði í fyrra þegar hann skoraði fyrir United gegn City, hljóp í átt að varamannaskýlunum og setti trekt á eyrun með höndunum. Þá var hann að minna stjórnarmenn United á sig, fyrir að vilja ekki kaupa sig til félagsins.
Gary Neville, varnarmaðurinn reyndi, brást illa við fagni Tévez. Neville, sem fyrir leikinn sagði að það hefði verið hárrétt hjá United að láta Tévez fara til City, var að hita upp utan vallar og setti fingur á loft, „sýndi Tévez puttann,“ og gæti átt von á refsingu frá enska knattspyrnusambandinu fyrir vikið.
Þetta var fyrri viðureign Manchesterliðanna í undanúrslitum bikarkeppninnar en þau mætast aftur á Old Trafford næsta miðvikudag.