Stoltur af mínum verkum hjá West Ham

Eggert Magnússon fylgist með leik hjá West Ham á Upton …
Eggert Magnússon fylgist með leik hjá West Ham á Upton Park. Reuters

„Halda menn virkilega að ég hafi staðið einn í þessu?“ segir Eggert Magnússon, fyrrum stjórnarformaður enska knattspyrnufélagsins West Ham, í samtali við enska götublaðið The Sun í dag.

Eggert er þar að svara fyrir sig eftir hörð ummæli Davids Sullivans, annars nýju eigendanna hjá West Ham, í hans garð í fjölmiðlum í Englandi í gær. Sullivan skýrði þar frá því að Eggert hefði haft samband við sig fyrir sex vikum og óskað eftir því að koma aftur að málum hjá félaginu ef Sullivan og David Gold myndu ná sínu fram og kaupa meirihluta í West Ham. Eggert hefur m.a. verið gagnrýndur fyrir að eiga stóran þátt í þeim skuldum sem söfnuðust upp hjá félaginu á meðan það var í eigu Íslendinganna undir forystu Björgólfs Guðmundssonar.

„Kannski var mér ekki sagt satt og rétt frá þegar ég kom til starfa hjá félaginu. Mér var sagt að það væru meiri fjármunir til staðar en raunin var, miklir peningar til að framkvæma margt. Og það vissu allir um þá samninga sem gerðir voru, ekki bara ég. Halda menn virkilega að ég hafi gert þetta allt uppá eigin spýtur? Halda menn að ég hafi gangið frá málum án stuðnings eigandans, framkvæmdastjórans og knattspyrnustjórans Alans Curbishleys? Auðvitað ekki. Ef fólk vill kenna mér um, þá verður svo að vera. En ég veit betur og er enn stoltur af mínum verkum hjá West Ham," sagði Eggert  við enska blaðið.

„Ég elska West Ham. Þetta er alvöru fótboltafólk sem stendur að félaginu og það er með alvöru stuðningsmenn. Ég þekki David Gold og kann mjög vel við hann. Ég sendi honum meira að segja sms-skeyti á föstudaginn og óskaði honum góðs gengis varðandi kaupin á West Ham. Ég er sannfærður um hann og Sullivan eru réttu mennirnir til að taka við félaginu einmitt núna. Þeir mæta til leiks með eigin peninga, ekki með bankalán uppá vasann," sagði Eggert Magnússon.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka