Tévez: Neville sýndi mér lítilsvirðingu

Carlos Tévez er ósáttur við Gary Neville.
Carlos Tévez er ósáttur við Gary Neville. Reuters

„Carlos Tévez, argentínski knattspyrnumaðurinn hjá Manchester City, segir að hann hafi fagnað sigurmarkinu gegn Manchester United í deildabikarnum í fyrrakvöld á sérstakan hátt, til að minna Gary Neville og Alex Ferguson á sig.

Neville lét þau orð falla fyrir leikinn að hann sæi ekkert eftir Tévez og það hefði verið hárrétt að láta hann fara frá félaginu síðasta sumar. Þegar Tévez hljóp að varamannabekkjunum eftir markið og hélt höndunum eins og trektum við eyrun, setti Neville fingur á loft, og er fyrir vikið til rannsóknar hjá enska knattspyrnusambandinu fyrir þá framkomu sína.

„Gary sýndi mér mikla lítilsvirðingu, sem er ekki líkt honum, en hann vissi ekki um allan bakgrunn þess að ég fór frá Manchester United. Ég tel að ég hefði átt skilið meiri virðingu frá honum," sagði Tévez við Sky Sports.

„Fótboltavöllur er nokkurs konar leikhús og þetta var ákveðin stríðni hjá mér. Það var engin illska á bakvið hana. Ég var ekki að reyna að æsa neinn upp en hafði fullan rétt á að láta Neville vita að hann hefði átt að sýna mér meiri virðingu.

Þegar ég skoraði seinna markið hljóp ég að hliðarlínunni með hendurnar við eyrun og horfði þangað sem stjórnarmenn United sátu, og líka á Ferguson í varamannaskýlinu. Ég vildi að þeir vissu að þetta væri mitt svar við því að þeir sögðu að ég væri ekki peninganna virði.

Fólk úr röðum United hefur talað um mig opinberlega og gagnrýnt mig en ég vildi láta verkin tala á vellinum, vegna þess að það er besta leiðin til að svara öllu þessu fólki, eins og Neville, sem sagði að það hefði verið rétt að láta mig fara," sagði Tévez.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka