Tévez sendir Neville tóninn

Carlos Tévez er ómyrkur í máli í garð Gary Neville.
Carlos Tévez er ómyrkur í máli í garð Gary Neville. Reuters

Carlos Tévez, argentínski knattspyrnumaðurinn hjá Manchester City, vandaði ekki fyrrum samherja sínum hjá Manchester United, Gary Neville, kveðjurnar í viðtali við ESPN Argentina í kvöld.

Neville sagði fyrir leik liðanna að það hefði verið fínt að láta Tévez fara frá United til City, og sendi honum síðan „fingurinn“ eftir að Tévez skoraði sigurmark City í leik liðanna í deildabikarnum á þriðjudagskvöldið.

„Ég beindi fagnaðarlátum mínum að Gary Neville. Hann lét eins og algjör höfðingjasleikja þegar hann sagði að ég væri ekki 25 milljón punda virði, bara til að koma sér í mjúkinn hjá knattspyrnustjóranum. Ég veit ekki hvers vegna þessi hálfviti var að úttala sig um mig. Ég fór heldur ekki yfir strikið í fagnaðarlátum mínum, og beindi þeim alfarið að Gary, ekki að Ferguson eða stuðningsmönnum United. Hann hefði átt að sleppa þessum ummælum, við vorum samherjar og ég hafði aldrei sagt neitt niðrandi um hann," sagði Tévez.

Það verður greinilega mikil spenna undir niðri fyrir seinni leik liðanna í keppninni á Old Trafford næsta miðvikudagskvöld. Enska knattspyrnusambandið biðlaði í dag til félaganna að halda sínum mönnum í skefjum og gæta þess að ekki sjóði uppúr í kringum leikinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert