Í dag er bikarkeppnin mál málanna í enska fótboltanum og fjórtán leikir á dagskrá í 4. umferð keppninnar, 32ja liða úrslitum. Þar verða nokkrir Íslendingar á ferð og þar af gætu þeir orðið fimm í fyrsta leik dagsins.
Reading, með þá Ívar Ingimarsson, Brynjar Björn Gunnarsson og Gylfa Þór Sigurðsson í byrjunarliði og Gunnar Heiðar Þorvaldsson á bekknum, tekur á móti úrvalsdeildarliði Burnley þar sem Jóhannes Karl Guðjónsson gæti komið við sögu. Leikur liðanna hefst kl. 12.45 á Madejski-leikvanginum í Reading.
Hermann Hreiðarsson og félagar í Portsmouth fá Sunderland í heimsókn og Grétar Rafn Steinsson og hans menn í Bolton taka á móti 1. deildarliði Sheffield United.
Bikarleikir dagsins eru annars þessir:
12.45 Reading - Burnley
12.45 Preston - Chelsea
15.00 Accrington Stanley - Fulham
15.00 Aston Villa - Brighton
15.00 Bolton - Sheffield United
15.00 Cardiff - Leicester
15.00 Derby - Doncaster
15.00 Everton - Birmingham
15.00 Notts County - Wigan
15.00 Portsmouth - Sunderland
15.00 Southampton - Ipswich
15.00 WBA - Newcastle
15.00 Wolves - Crystal Palace
17.15 Tottenham - Leeds
Sunnudagur:
13.30 Stoke - Arsenal
16.00 Scunthorpe - Manchester City
Þá er einn leikur í úrvalsdeildinni en þar eigast við tvö lið sem eru fallin úr bikarnum, Manchester United og Hull City. United fær þar tækifæri til að komast í toppsæti deildarinnar, uppfyrir Arsenal og Chelsea.
Ennfremur er Íslendingaslagur í 1. deild þar sem Plymouth, lið Kára Árnasonar, tekur á móti Barnsley, liði Emils Hallfreðssonar. Liðin mættust í desember og þá var leiknum hætt vegna vallarskilyrða þegar staðan var orðin 4:1 fyrir Barnsley.
Heiðar Helguson verður líka á ferð en Watford sækir Blackpool heim í 1. deildinni. Í 2. deild leikur Hartlepool, lið Ármanns Smára Björnssonar, við Bristol Rovers á útivelli.