Crystal Palace í greiðslustöðvun

Enska knattspyrnufélagið Crystal Palace hefur verið sett í greiðslustöðvun vegna afar erfiðrar fjárhagsstöðu. Stjórn ensku deildakeppninnar á eftir að úrskurða um viðurlög en jafnan eru 10 stig dregin af liðum þegar þetta gerist.

Palace er sem stendur í 9. sæti 1. deildar með 37 stig og í baráttu um sæti í umspili um úrvalsdeildarsæti. Tíu stiga frádráttur þýðir hinsvegar að liðið fer niður í 20. sæti af 24 liðum í deildinni með 27 stig og er þá fjórum stigum frá fallsæti.

Palace hefur gengið illa að fá nýja fjárfesta og leikmenn liðsins hafa ekki fengið laun á réttum tíma í nokkur skipti. Þá er Palace í félagaskiptabanni vegna stöðunnar.

Í yfirlýsingu frá félaginu í dag segir að rekstur þess sé kominn í hendur fyrirtækis sem hafi það verkefni að finna nýja eigendur. Vonast sé til þess að það taki ekki langan tíma því margir hafi sýnt áhuga á að eignast félagið.

Crystal Palace er frá London og hefur aðsetur á Selhurst Park í suðausturhluta borgarinnar. Félagið hefur leikið í fimm ár í úrvalsdeild frá stofnun hennar árið 1992, síðast tímabilið 2004-2005, og var af og til í efstu deild á árunum 1969 til 1992. Knattspyrnustjóri félagsins er Neil Warnock.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert