Netútgáfa Daily Mail skýrði frá því rétt í þessu að enska knattspyrnufélagið West Ham hefði samið við Mónakó í Frakklandi um að fá Eið Smára Guðjohnsen, án greiðslu. Gengið verði endanlega frá samningum á næsta sólarhringnum en Eiður sé þegar búinn að samþykkja samningstilboð West Ham.
Þar með hefur West Ham tryggt sér tvo sóknarmenn nú síðdegis því fyrir stundu var skýrt frá því að Blackburn hefði tekið tilboði félagsins í Benni McCarthy.
Dvöl Eiðs Smára í Mónakó verður því aðeins fimm mánuðir en hann kom til franska félagsins frá Barcelona í lok ágúst. Eiður náði ekki að festa sig í sessi hjá Mónakó, skoraði ekki mark í deildaleik og var um tíma settur út úr leikmannahópnum.