Enska knattspyrnusambandið hefur ákært Rio Ferdinand, miðvörð Manchester United, eftir að hafa skoðað upptöku af atviki í leik liðsins við Hull City á laugardaginn þar sem hann virtist slá Chris Fagan, leikmann Hull.
Ferdinand má búast við þriggja leikja banni ef hann verður fundinn sekur en hann hefur fengið frest til að svara fyrir sig þar til annað kvöld. Ef hann játar sekt sína strax fer hann beint í þriggja leikja bann, en annars mætir hann til fundar með aganefndinni á fimmtudag.
Ljóst er samt að Ferdinand getur leikið með United gegn Manchester City í deildabikarnum annað kvöld en byrjar væntanlega að afplána bannið þegar United mætir Arsenal í úrvalsdeildinni á sunnudaginn.