West Ham staðfestir áhuga á Eiði Smára

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. www.asm-fc.com

David Sullivan, annar aðaleigenda enska knattspyrnufélagsins West Ham, staðfesti í dag að félagið hefði hug á að fá Eið Smára  Guðjohnsen lánaðan frá Mónakó, ef ekki tekst að semja við Blackburn um kaup á Benni McCarthy. Hann segir að fjölmargir hafi ráðlagt sér að leita ekki eftir því að fá Eið til félagsins en stjórinn vilji fá hann.

West Ham hefur gert Blackburn tilboð í McCarthy, en Soccernet segir í dag að Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Blackburn, vilji fá Eið frá Mónakó ef McCarthy fer til West Ham, og hafi rætt við forráðamenn liðsins frá furstadæminu um það í vikubyrjun.

„Ég get staðfest að við höfum gert tilboð í McCarthy, og ég get líka staðfest að við höfum verið í sambandi við Mónakó vegna Guðjohnsens. Það ráðleggja mér allir að láta Guðjohnsen eiga sig vegna þess að hann missti af síðasta undirbúningstímabili. En stjórinn okkar, Zola, metur hann mikils og það er greinilegt að Stóri-Sam gerir það líka fyrst hann er líka  búinn að falast eftir honum," sagði Sullivan við Soccernet.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert