Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði að Wayne Rooney hefði verið betri í deildabikarleiknum gegn Manchester City í kvöld en þegar hann skoraði fernuna gegn Hull á laugardaginn. Rooney, sem tryggði United farseðilinn á Wembley með marki í uppbótartíma, vildi beina hrósinu að Darren Fletcher.
Rooney skoraði á annarri mínútu í uppbótartíma, þegar allt stefndi í framlengingu. Staðan var þá 2:1 fyrir United og 3:3 samanlagt en með skallamarki Rooneys urðu lokatölur 3:1 og samanlagt 4:3. United mætir Aston Villa í úrslitaleiknum á Wembley 28. febrúar.
„Þetta var ekta nágrannaslagur og slíka leiki vilja allir vinna. Það var margt sem kryddaði hann og fögnuðurinn í lokin var mjög sérstakur. Við vorum þolinmóðir í okkar leik, en hættulegir þegar við gáfum í. Mér fannst Wayne Rooney eiga heimsklassaleik í kvöld. Hann lék enn betur en á laugardaginn þegar hann skoraði 4 mörk. Stórkostlegur," sagði Ferguson við BBC í leikslok.
Rooney sagði að leikmenn City hefðu ekki ráðið við það þegar United sótti stíft. „Darren Fletcher var ótrúlegur, eins og hann er búinn að vera í mörg ár. Einhverra hluta vegna fær hann ekki það hrós sem hann á skilið, en í honum kristallast allt það sem Manchester United stendur fyrir. Hann er í heimsklassa og ég myndi ekki skipta á honum og nokkrum öðrum í heiminum," sagði Rooney um skoska miðjumanninn.