Manchester United sigraði Manchester City, 3:1, í síðari leik liðanna í undanúrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu á Old Trafford í kvöld. United vann þar með 4:3 samanlagt og mætir Aston Villa í úrslitaleik á Wembley. Wayne Rooney skoraði markið sem réð úrslitum í uppbótartíma.
Manchester City vann fyrri leik liðanna 2:1.
Carlos Tévez skoraði bæði mörk City í fyrri leiknum og á 30. mínútu í kvöld var hann hársbreidd frá því að koma City yfir. Edwin van der Sar í marki United varði þá skalla hans á glæsilegan hátt.
Ljótt atvik átti sér stað á 50. mínútu þegar hlutum var grýtt í Craig Bellamy þegar hann var að taka hornspyrnu fyrir City.
Á 52. mínútu skoraði Paul Scholes fyrir United með hörkuskoti frá vítateig eftir að Michael Carrick renndi boltanum út til hans. Staðan 1:0, og þá 2:2 samanlagt. Mörk á útivelli eru ekki reiknuð fyrr en eftir framlengingu í þessari keppni, þannig að leikurinn hefði verið framlengdur ef hann endaði svona.
Manchester United komst í 2:0 á 71. mínútu. Darren Fletcher var stöðvaður á síðustu stundu við markteig City en boltinn fór til hægri þar sem Michael Carrick skoraði með viðstöðulausu skoti. Staðan 3:2 samanlagt fyrir United.
Carlos Tévez náði síðan að skora á sínum gamla heimavelli á 76. mínútu þegar hann afgreiddi boltann viðstöðulaust í netið eftir sendingu frá Craig Bellamy. Staðan 2:1 og 3:3 samanlagt.
Þegar komið var framá aðra mínútu í uppbótatíma skoraði Wayne Rooney með hörkuskalla eftir fyrirgjöf frá hægri. Staðan 3:1 og 4:3 samanlagt, og Rooney gerði þar með útum þetta spennandi tveggja leikja einvígi Manchesterliðanna.
Byrjunarliðin voru þannig skipuð:
Man. City: Given, Richards, Kompany, Boyata, Garrido, Barry, De Jong, Zabaleta, Wright-Phillips, Bellamy, Tévez.