Aaron Lennon, kantmaður Tottenham og enska landsliðsins í knattspyrnu, verður frá keppni í þrjár vikur í viðbót hið minnsta en hann hefur ekkert náð að spila með liði sínu í úrvalsdeildinni frá áramótum. Þetta kann að flýta fyrir því að Eiður Smári Guðjohnsen fái tækifæri í liði Tottenham.
Lennon glímir við nárameiðsli og eftir myndatökur í dag var niðurstaðan sú að hann yrði enn um sinn frá keppni. Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham, sagði við fréttamenn í dag að hann vonaðist til þess að það yrðu ekki meira en þrjár vikur.
„Við söknum Aarons og hans mikla hraða. Hann sækir hratt og er mjög ógnandi. Það er samt mikilvægt að láta hann ekki byrja að spila of snemma og við tökum ekki áhættu á því," sagði Redknapp.
Redknapp hefur sagt að í fjarveru Lennons og með tilkomu Eiðs Smára í hópinn sé nú kominn sá möguleiki að spila með svokallaða „tígulmiðju“, með Eið fremstan, en þá er ekki leikið með fasta kantmenn.