Ef marka má enska fjölmiðla, er þessi föstudagur langur hjá Harry Redknapp knattspyrnustjóra Tottenham Hotspur og forráðamönnum Lundúnafélagsins. Þeir eru uppteknir við að semja um nýja leikmenn og í leiðinni að losa sig við aðra frá félaginu áður en lokað verður fyrir félagaskiptin á mánudagskvöldið.
Eiður Smári Guðjohnsen verður væntanlega orðinn formlega leikmaður Tottenham síðar í dag. Samkvæmt heimildum mbl.is er hann á leið á sína fyrstu æfingu nú um hádegið og ef allt verður klappað og klárt varðandi leikheimild gæti hann farið beint í leikmannahópinn fyrir leikinn gegn Birmingham á morgun.
Tottenham er ennfremur í viðræðum við Portsmouth um að fá varnarmanninn öfluga Younes Kaboul aftur til félagsins, sem og bosníska markvörðinn Asmir Begovic, sem hefur slegið í gegn með suðurstrandarliðinu að undanförnu í fjarveru David James.
Rússneski framherjinn Roman Pavluychenko virðist örugglega á förum en ekki er ljóst hvert og Tottenham er sagt hafa hafnað 8 milljón punda tilboði í hann frá Birmingham. Pavluychenko hefur aldrei verið í byrjunarliði Tottenham í úrvalsdeildinni í vetur og aðeins komið inná í fjórum leikjum.
Robbie Keane, „félagsfyrirliði“ Tottenham, gæti líka farið frá félaginu. Daily Mail fullyrðir í dag að Tottenham hafi boðið bæði West Ham og Celtic hann til kaups en laun Keanes standi þar í veginum. Það gæti því endað þannig að Tottenham lánaði hann til annars hvors félagsins út þetta tímabil.
Tottenham hefur þó ekkert sagt ennþá frá neinum umsvifum á leikmannamarkaðnum á vef sínum í dag og hefur ekki tilkynnt opinberlega um samninginn við Eið Smára, enn sem komið er.