Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri West Ham, leyndi því ekki á fréttamannafundi í dag að hann væri afar óhress með Eið Smára Guðjohnsen, fyrrum samherja sinn hjá Chelsea, fyrir að hætta við á síðustu stundu að gerast leikmaður West Ham og ganga til liðs við nágrannana í Tottenham.
Zola var spurður á fundinum hvort hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með ákvörðun Eiðs.
„Já, ég er óhress með Tottenham og ég er óhress með Eið. Ég bjóst við betri framkomu frá honum. Það er stöðugt verið að segja mér að fótboltinn sé orðinn svona, en ég segi alltaf að ég búist við því að þeir sem ég ræði við sýni ákveðna framkomu og virðingu.
Það var ekki í þessu tilfelli en við munum halda okkar striki. Við eigum margt ógert á þessu keppnistímabili og getum enn náð okkar markmiðum þrátt fyrir þetta," sagði Zola, en hann og Eiður voru samherjar hjá Chelsea á árunum 2000 til 2003 og náðu mjög vel saman. Zola hafði jafnframt lagt þunga áherslu á að fá Eið í sínar raðir.