Rooney verður aldrei seldur

Wayne Rooney hefur skorað 21 mark á tímabilinu.
Wayne Rooney hefur skorað 21 mark á tímabilinu. Reuters

David Gill, framkvæmdastjóri Manchester United, segir að Wayne Rooney verði aldrei seldur frá félaginu, sama hversu hátt tilboð berist, nema Alex Ferguson knattspyrnustjóri leggi blessun sína yfir það.

Eftir frábæra frammistöðu Rooneys að undanförnu hafa farið af stað fregnir um að Barcelona og Real Madrid vilji fá hann í sínar raðir.

„Við munum aldrei samþykkja tilboð í leikmann sem við viljum halda í okkar röðum, sama hversu hátt það er, nema Alex samþykki það. Wayne er samningsbundinn okkur til 2012, það hefur verið haft eftir honum að hann vilji vera um kyrrt, og við viljum að hann verði um kyrrt. Það verður örugglega arið í þetta mál í sumar, við viljum semja við hann á ný til langs tíma. Hann er 24 ára gamall og á sín bestu ár framundan. Mjög fáir leikmenn, sérstaklega breskir, vilja yfirgefa Manchester United," sagði Gill í viðtali við BBC.

Gill sagði ennfremur að Alex Ferguson hefði svigrúm til að nýta þær 80 milljónir punda sem fengust fyrir Cristiano Ronaldo síðasta sumar til að kaupa nýja leikmenn, ef hann hafi áhuga á að stækka hópinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert