Stórleikurinn á Emirates í dag

Sol Campbell gefur fyrirskipanir í vörn Arsenal í leiknum við …
Sol Campbell gefur fyrirskipanir í vörn Arsenal í leiknum við Aston Villa. Reuters

Stórleikur helgarinnar, og í raun ársins til þessa, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hefst klukkan 16 þegar Arsenal tekur á móti Manchester United á Emirates-leikvanginum í London.

Mikill rígur hefur verið á milli þessara félaga um árabil og nú eru þau í hörkukeppni um enska meistaratitilinn. Þar er Chelsea með 54 stig, Manchester United 50 og Arsenal 49 stig þegar flautað er til leiks í dag og í augnablikinu er því annað sæti deildarinnar í húfi.

Forföll eru hjá báðum liðum. Thomas Vermaelen og Eduardo hjá Arsenal meiddust í vikunni þegar liðið mætti Aston Villa og hjá United hefur Rio Ferdinand fjögurra leikja bann. Reyndar hefur ekki verið útilokað að Vermaelen leiki með Arsenal en frekar er gert ráð fyrir að reynsluboltinn Sol Campbell leysi hann af hólmi, eins og í leiknum gegn Villa.

Arsenal hefur hinsvegar fengið til baka þá Alex Song og Emmanuel Eboue, sem hafa verið fjarverandi frá áramótum vegna Afríkukeppninnar, og báðir eru tilbúnir í slaginn í dag. United hefur endurheimt Nemanja Vidic, sem var meiddur, og hann tekur væntanlega stöðu Ferdinands í vörninni.

Þetta er í 42. skipti sem Alex Ferguson og Arsene Wenger mætast sem knattspyrnustjórar félaganna. Til þessa hefur Ferguson fagnað 16 sigrum en Wenger 14 og 11 hafa endað með jafntefli.

United hefur aldrei unnið deildaleik á Emirates-leikvanginum og vann síðast útileik gegn Arsenal í deildinni í febrúar 2005, þá 4:2. Hinsvegar vann United leik liðanna á Emirates í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu síðasta vor, 3:1.

Fyrri leikur dagsins er viðureign Manchester City og Portsmouth sem hefst á Borgarleikvanginum í Manchester klukkan 13.30. Hermann Hreiðarsson verður þar örugglega á sínum stað í vörn Portsmouth.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert