Wenger: Sigraðir á öllum sviðum

Arsene Wenger reynir að hvetja sína menn til dáða í …
Arsene Wenger reynir að hvetja sína menn til dáða í leiknum gegn Manchester United. Reuters

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sagði eftir ósigurinn gegn Manchester United, 1:3, í stórleiknum á Emirates-leikvanginum að sínir menn hefðu verið sigraðir á öllum sviðum.

„Það er erfitt að sætta sig við þessa niðurstöðu en auðvelt að útskýra hana því við vorum lélegir í sókn og lélegir í vörn. Frammistaðan var óásættanleg og við töpuðum á afgerandi hátt. Við vorum barnalegir í okkar leik," sagði Wenger við BBC eftir leikinn.

„Við vorum ekki bara í vandræðum með Rooney, heldur fengu þeir of mikið pláss alls staðar á vellinum. Rooney nýtti sér það vel. Við fengu á okkur tvö mörk eftir okkar eigin hornspyrnur, staðsetningar okkar manna voru rangar í bæði skiptin.

Þetta er mikið áfall fyrir okkur og mikil vonbrigði en við verðum að jafna okkur á því. Þetta fylgir toppslag í úrvalsdeildinni. Leikmenn okkar eru miður sín. Manchester United lék vel og var í öðrum gæðaflokki en við, og þetta var ekki síst andlegt. Um næstu helgi verðum við að leggja okkur alla fram við að sýna aðra og betri frammistöðu. Í dag vorum við alltof langt frá mótherjum okkar, og þá vinna menn ekki toppleiki.

Við verðum að gera eitthvað sérstakt ef við ætlum að halda okkur í toppbaráttunni, ég geri mér fulla grein fyrir því," sagði Arsene Wenger.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert