Reynsla Eiðs Smára gæti reynst dýrmæt fyrir Tottenham

Eiður Smári heldur hér á keppnistreyju Tottenham.
Eiður Smári heldur hér á keppnistreyju Tottenham. www.tottenhamhotspur.com

Tony Cascarino fyrrum landsliðsmaður Íra í knattspyrnu gefur álit sitt á komu Eiðs Smára Guðjohnsen til Tottenham í breskum fjölmiðlum en Eiður var í síðustu viku lánaður til Lundúnaliðsins frá Mónakó þar sem hann hefur ekki átt sjö dagana sæla. Eiður lék sinn fyrsta leik í búningi Tottenham í gær og skoraði tvö mörk í æfingaleik á móti Dagenham & Redbridge.

„Eiður snýr aftur í ensku úrvalsdeildina ári síðar en ég átti von á.  Eiður hefur átt erfitt uppdráttar síðustu árin, hann spilaði lítið með Barcelona og Mónakó. Það  gæti verið góð breyting fyrir hann að fara til Tottenham,“ segir Cascarino, sem á árum áður lék meðal annars með Chelsea.

„Íslenski framherjinn var mjög góður leikmaður með Chelsea. Hann er ekki afkastamikill markaskorari en hann er tæknilega mjög góður leikmaður og ef það einhver sem getur látið hann finna sig hjá Tottenham þá er það Harry Redknapp.

Ég reikna ekki með því að Eiður labbi beint inn í liðið þar sem Peter Crouch og Jermain Defoe er aðal framherjaparið hjá Redknapp. Hins vegar er hann frábær liðsmaður og mun njóta þess að spila með mönnum eins og Luka Modric þegar hann fær tækifæri.

Einu áhyggjur mínar eru þær að Eiður hefur lítið spilað undanfarin ár. Hefur hann hungrið sem er nauðsynlegt að hafa til að standa sig vel í úrvalsdeildinni? Eiður náði sér ekki á strik þann stutta tíma sem hann var hjá Mónakó og fyrir mér er franska deildin töluvert veikari en enska úrvalsdeildin.

Eiður hefur aldrei verið fljótur en hann er skapandi, hefur unnið marga titla og reynsla hans gæti reynst dýmæt fyrir Tottenham. Ég tel ekki að Harry eða Tottenham séu að taka neina áhættu með því að fá hann þar sem þetta er stuttur lánssamningur og hver veit nema að Guðjohnsen finn sitt gamla form og hjálpi Tottenham að ná fjórða sætinu í deildinni,“ segir Cascarino.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert